top of page
  • Writer's pictureHilda Karen

Benedikt sigraði fimmganginn

Annað mótið í Meistaradeild LÍFLANDS og æskunnar fór fram í Samskipahöllinni í Spretti á sunnudag og var í boði Fákalands Export. Í deildinni keppa fjörutíu knapar í 10 liðum og eru mótin fimm alls.


Á þessu öðru móti var keppt í fimmgangi, sem er vissulega gríðarlega krefjandi verkefni inni í reiðhöll og þegar keppendur eru einir inná. Um leið öðlast knaparnir þó dýrmæta reynslu í verkefninu sem er afar dýrmætt þegar litið er til framtíðar.


Forkeppnin fór vel fram og voru knaparnir að venju til fyrirmyndar þegar kemur að stundvísi og prúðmennsku. Efst eftir forkeppni voru þau jöfn og efst Glódís Rún Sigurðardóttir og Kristófer Darri Sigurðsson með 6,30. Glódís Rún var á ungum og spennandi hesti sem fipaðist aðeins í úrslitunum og Kristófer Darri varð fyrir því óláni að missa skeifu undan Vorboða sínum en fyrir skeiðið voru þeir félagar efstir.


Að loknum sterkum A-úrslitum var ljóst að tveir keppendur voru jafnir í 1. -2. sæti, en það voru Hrímnisknaparnir Védís Huld Sigurðardóttir og Benedikt Ólafsson með 6,33 og þurfti því sætaröðun dómara til að skera úr um niðurstöðu. Það fór þannig að Benedikt hafði betur og var því sigurvegari fimmgangsins að þessu sinni. Mjög skammt á eftir þeim í þriðja sætinu varð Hulda María Sveinbjörnsdóttir með 6,31.


B-úrslitin voru frábærlega vel riðin af þeim fimm sem tóku þátt í þeim en þar hafði Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal nokkuð öruggan sigur með 6,60. Samkvæmt reglum deildarinnar hlaut hann þó ekki sæti í A-úrslitum en hins vegar hlaut hann dýrmæt stig í einstaklingskeppninni.


Stjórn deildarinnar þakkar keppendum, forráðamönnum, dómurum og sjálfboðaliðum fyrir góðan dag og minnir á næsta mót sem er þann 8. mars og þá verður keppt í T2 og flugskeiði í TM-höllinni í Fáki.




Benedikt á fljúgandi ferð á skeiði á Leiru-Björk!

Hrímnisliðið sigraði liðakeppnina í fimmganginum; f.v. Benedikt, Védís Huld, Sigrún Högna og Glódís Rún.

263 views0 comments

Comentários


bottom of page