Fimmgangsmót Meistaradeildar LÍFLANDS og æskunnar, sem var í boði CINTAMANI, var glæsilegt og einbeittir knapar með frábæran hestakost áttu góðar sýningar í Lýsishöllinni í Víðidal í dag.
Eiðfaxi kom mótinu heim til þeirra sem ekki áttu heimangengt og gerði það mjög vel. Aðstandendur deildarinnar leggja mikið upp úr því að hafa góða lýsendur sem koma skilaboðum og ráðleggingum til keppenda um það sem vel er gert og einnig það sem betur má fara. Þessi deild er jú nefnilega grunnurinn að því að knapar framtíðarinnar læri með hverri sýningu sinn og setji allt í reynslubankann. Það var Sigurður Ævarsson, Haukur Bjarnasyni, Erla Guðný Gylfadóttir og Hinrik Þór Sigurðsson sem í dag sinntu þessu mikilvæga hlutverki og þökkum við þeim kærlega fyrir sitt framlag. Keppendur eru jafnframt hvattir til að nýta þetta vel, sér til framdráttar í íþróttinni.
Efst eftir forkeppnina var nýliði í deildinni, Hildur María Jóhannesdóttir á Greip frá Haukadal 2 með einkunnina 6,23, önnur Kolbrún Sif Sindradóttir á Tign frá Hrauni með 6,10 og þriðja Elva Rún Jónsdóttir á Pipar frá Ketilsstöðum með 6,03.
B-úrslitin riðu þrír knapar og fóru þau þannig að Fanndís Helgadóttir á Sprota frá Vesturkoti vann þau með 6,29, næst á eftir henni kom Ísabella Helga Játvarðsdóttir á Lávarði frá Ekru með 5,93 og í 10. sæti varð Vigdís Anna Hjaltadóttir á Hlíf frá Strandarhjáleigu með 5,33. Reglum samkvæmt fór sigurvegarinn ekki upp í A-úrslit, þar sem þau eru haldin strax á eftir.
Í A-úrslitunum varð þónokkuð um vendingar, því upp úr fjórða sæti inn í úrslitin kom Dagur Sigurðarson og stal senunni á höfðingjanum Skugga-Sveini frá Þjóðólfshaga 1. Dagur kom inn með 6,0 í einkunn en þeir félagar bættu sig töluvert í úrslitunum og hlutu þar meðaleinkunn upp á 6,43. Gabríel Liljendal Friðfinnsson á Gránu frá Runnum bætti einnig töluvert í í úrslitunum en hann reið sig upp úr 5. - 7. sæti í annað sætið með einkunnina 6,17 og þriðja varð svo Kolbrún Sif á Tign með 6,14.
Það má engu muna í svona harðri og tæknilegri keppni og lítið þarf að bera út af svo að tölur tapist. En þannig er keppnin og það er líka það sem gerir hana spennandi.
Stigahæsta liðið í fimmganginum var lið Hofsstaða/Ellerts Skúlasonar með 70 stig.
Staðan í einstaklingskeppninni er þannig að efstur eftir tvær greinar er Dagur Sigurðarson með 14 stig, önnur er Ída Mekkín Hlynsdóttir með 13 stig og þriðja er Eik Elvarsdóttir með 12 stig.
Hér fyrir neðan má smella á tengilinn og skoða allar niðurstöður mótsins í pdf skjali og einnig má finna þær í HorseDay smáforritinu.
Staðan í stigasöfnun liða er svona eftir fyrsta mótið:
Staðan í einstaklingskeppninni er svona eftir eina grein:
Comments